LS Retail flytur í Norðurturninn

Hugbúnaðarfyrirtækið LS Retail hefur tryggt sér 11.–15. hæðirnar í Norðurturninum við Smáralindina. Nýverið undirrituðu Nýr Norðurturn hf. og LS Retail ehf. samning um leigu á 12., 13., 14. og 15. hæð og leigurétt á 11. hæð í Norðurturninum við Smáralind. Hæðirnar eru samtals um 4.100 m2. Áætlað er að LS Retail fái húsnæðið í Norðurturninum afhent fullinnréttað í byrjun sumars og flytji starfsemi sína þangað í kjölfarið.
LS Retail er alþjóðlegt hugbúnaðarfyrirtæki með höfuðstöðvar á Íslandi.
Starfsmenn fyrirtækisins eru um 180 talsins, þar af 120 sem starfa hér á landi. Fyrirtækið hefur vaxið hratt undanfarin ár og er áætlað að starfsmönnum fjölgi verulega á næstu árum. Húsnæðið verður innréttað með þarfir starfsmanna og fyrirtækisins í huga, sér í lagi útfrá hljóðvist, sveigjanleika og flæði innan og á milli vinnustöðva.
Norðurturninn er vandað og einstaklega glæsilegt húnæði, alls um 18.000 m2 á 15 hæðum, þar af 12 skrifstofuhæðir sem hver er um 930 fm auk um 370 fm á 15. hæð.  Íslandsbanki hefur nýlega tryggt sér hluta fyrstu hæðar fyrir nýtt útibú. Á fyrstu og annarri hæð hússins er fyrirhugað að hafa verslunar- og þjónustustarfsemi, en þær eru beintengdar við verslunarmiðstöðina Smáralind.
Frá undirritun samningsins. Neðri röð frá vinstri: Garðar Guðgeirsson stjórnarformaður NNT og Magnús Norðdahl forstjóri LS Retail. Efri röð: Garðar Gylfason Malmquist fjármálastjóri LS Retail,  Snorri Arnar Viðarsson stjórnarmaður NNT, Þorsteinn Pálsson stjórnarmaður NNT og Ríkharð Ottó Ríkharðsson framkvæmdastjóri NNT.