Annata flytur í Norðurturninn

Hugbúnaðarfyrirtækið Annata hefur tryggt sér 10. hæðina í Norðurturninum við Smáralindina. Nýverið undirrituðu Nýr Norðurturn hf. og Annata ehf. samning um leigu hins síðarnefnda á allri 10. hæðinni í Norðurturninum við Smáralindina. Hæðin er um 930 m2 og er gert ráð fyrir að hún hýsi allt að 100 starfsmenn.

Annata er alþjóðlegt hugbúnaðarfyrirtæki með höfuðstöðvar á Íslandi. Fyrirtækið var stofnað árið 2001 og hefur frá stofnun lagt áherslu á þróun og þjónustu á lausnum byggðum á Microsoft Dynamics AX viðskiptalausnum. Með sérsniðnum lausnum tengdum Microsoft Dynamics AX hefur Annata náð að festa sig í sessi á alþjóðamarkaði. Fyrirtækið hefur vaxið hratt og er nú með skrifstofur í 11 löndum víðsvegar um heiminn. Um áramótin festi Annata kaup á hugbúnaðarfyrirtækinu xRM Software ehf. sem sérhæfir sig í ráðgjöf og innleiðingu á Microsoft Dynamics CRM viðskiptatengslahugbúnaði og með þeim kaupum hefur þjónustu- og lausnaframboð Annata aukist enn frekar. Hjá Annata starfa 100 starfsmenn, þar af rúmlega helmingur á Íslandi.
Áætlað er að Annata fái húsnæðið í Norðurturninum afhent fullinnréttað í júní.

Norðurturninn er vandað og einstaklega glæsilegt hús, alls um 18.000 m2 á 15 hæðum, þar af 13 skrifstofuhæðir.  Íslandsbanki hefur nýlega tryggt sér hluta fyrstu hæðar fyrir nýtt útibú. Á fyrstu og annarri hæð hússins er fyrirhugað að hafa verslunar- og þjónustustarfsemi með beinni tengingu við verslunarmiðstöðina Smáralind.

Garðar Guðgeirsson stjórnarformaður NNT, Björn G. Karlsson stjórnarmaður Annata, Gunnar Þorláksson stjórnarmaður NNT, Þorsteinn Pálsson stjórnarmaður NNT, Jóhann Jónsson stjórnarmaður Annata og Marteinn Þór Arnar stjórnarmaður Annata handsala samninginn.